Eldræða Barroso í þinginu

Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hélt eldræðu í Evrópuþinginu í Strassborg, þar sem hann gagnrýndi harðlega leiðtoga aðildarríkjanna og aðferðir þeirra við að leysa mestu erfiðleika sem Evrópa hefði staðið frammi fyrir. Æðstu ráðamenn Bandaríkjanna fengu líka sína sneið fyrir gagnrýni á aðgerðir ESB í efnahagsmálum. Hávært lófatak Evrópuþingmanna truflaði ræðu Barroso hvað eftir annað.

Barroso sagði í ræðu sinni að það hrikti í stoðum alþjóðakerfisins og að Evrópu stæði ógn af vantrausti á leiðtogum Evrópu almennt og getu þeirra til að finna lausn í erfiðum málum. Hann varaði við hættunni á að aðildarlönd gengju úr ESB og sneru aftur til meiri þjóðernishyggju.

Hann sagði að fjármálamarkaðir kalli nú á aukna samþættingu í Evrópu.
Samvinnuhugsjónin sé ekki nægileg til þess að leiða Evrópu út úr efnahagskreppunni. Því sé nauðsynlegt að þróa myntsamstarfið yfir í efnahagssamstarf. “Það var tálsýn að halda að við gætum haft sameiginlega mynt og sameinað markaðssvæði, með aðskildar efnahags- og fjárlagastefnur eftir aðildarríkjum”, sagði Barroso. Hann sagði að framkvæmdastjórnin myndi fljótlega leggja fram tillögur að dýpri efnahagslegri miðstýringu, sem gengju lengra en hinir sex lagabálkar um efnahagsmál sem Evrópuþingið hefur nýlokið við að samþykkja.

Hann segir framkvæmdastjórnina þurfa að vera ákvörðunartökuaðili um efnahagsstjórn sambandsins, sem sjálfstæður og sanngjarn aðili. Ríkisstjórnir geti ekki ákveðið stefnuna, hvorki í sínu horni né með samningum sín á milli. Ekki sé hægt að sætta sig við að fara þá leið sem það land sem styst vill ganga samþykkir. Því sé nauðsynlegt að breyta stofnsáttmála og afnema þá ákvörðunartökureglu að einróma samþykki þurfi til ákveðinna breytinga í leiðtoga- og ráðherraráði. Eitt ríki ætti ekki að geta hindrað önnur fullvalda aðildarríki sem vilja breytingar.

Um gagnrými Barck Obama, Bandaríkjaforseta, og Timothy Geithner, fjármálaráðherra BNA, sagði hann að Evrópubúar ættu við alvarleg vandamál að glíma, en að þeir þyrftu ekki að afsaka sig fyrir lýðræðisríki sín. Hann kallaði eftir meiri staðfestu leiðtoga aðildarríkjanna um að þeir leysi sinn vanda sjálfir.
EUObserver

Tengt efni

Share

About Author

admin

(0) Readers Comments

Comments are closed.

UA-26279970-3