Unnið að vali á nýrri framkvæmdastjórn
Charlemagne_byggingin

Charlemagne byggingin við Schuman hringtorgið í Brussel. Mynd:JLogan, Wikimedia Commons

Nánustu ráðgjafar og starfslið Jean-Claude Juncker undirbúa nú hörðum höndum stólaskipti forseta framkvæmdastjórnarinnar í haust, þegar Juncker tekur við af José Manuel Barroso. Starfslið Juncker er með aðstöðu í Charlemagne byggingunni*, nærri höfuðstöðvum framkvæmdastjórnarinnar og ráðs ESB.

Auka á hlut kvenna
Aðaláhersla starfsmanna Junckers er á samsetningu næstu framkvæmdastjórnar ESB, en mikil áhersla er lögð á aukinn hlut kvenna þar. Aðildarríki ESB hafa sent inn tilnefningar og verið að vinna úr þeim gögnum. Búast má við endanlegri uppröðun í byrjun september, en beðið verður eftir því hver verður tilnefnd/ur utanríkismálastjóri Sambandsins á leiðtogafundinum sem fram fer þann 30. ágúst næstkomandi. Starfsmannastjóri og fyrrum kosningastjóri Junckers, Martin Selmayr, sagði í samtali við EUObserver að val í lykilstöður verði að endurspegla landfræðilegt jafnræði og að kona verði að sinna minnst einni þeirra.

Þar sem Juncker er forseti framkvæmdastjórnarinnar og Martin Schultz var endurkjörinn forseti Evrópuþingsins, mætti segja að líklegt mætti telja að kona verði aftur valin utanríkismálastjóri.

Ný verkefni fyrir varaforseta
Uppstokkun verkefna framkvæmdastjóra gæti verið í bígerð, en óvenju margir fyrrum forsætisráðherrar hafa verið tilnefndir í stöður framkvæmdastjóra. Þessi mikla stjórnunarreynsla gæti mögulega nýst í stjórnunarstöður án sviðs, er myndu létta álagi af allsherjarsviði og takmarka verkefni á stjórnarsviðum annarra framkvæmdarstjóra. Þetta væri í takt við óskir Breta og Þjóðverja um færri og afmarkaðri verkefni sem framkvæmdastjórnin væri að sinna. Slíkt gæti einnig réttlætt hærri laun hinna 8 varaforseta úr hópi 28 framkvæmdastjóra.

Færri ferðalög
Selmayr, starfsmannastjóri, segir að áhersla verði lögð á innri mál ESB. Hann segir að verkefni embættis forseta leiðtogaráðsins verði endurskoðuð og ferðalög þess aflögð í þeim tilfellum þar sem ferðalög embættis forseta framkvæmdastjórnarinnar geti eitt og sér verið nægilegt. Juncker hefur einnig lofað að allir fundir framkvæmdastjóra með hagsmunahópum verði gerðir opinberir, til að auka gagnsæi og vonast Juncker til þess að þingmenn Evrópuþingsins geri slíkt hið sama.

Selmayr telur að hið nýja beina forsetaval verði að miklu leyti dæmt útfrá því hvernig næsta framkvæmdastjórn Junckers mun standa sig.

 

* Í Charlemagne byggingunni eru starfsstöðvar stjórnarsviðs efnahags- og fjármála, stjórnarsviðs viðskipta og stjórnarsviðs stækkunarmála hjá framkvæmdastjórn ESB. Áður var ráð Evrópusambandsins þar til húsa, en það flutti í Justus Lipsius bygginguna árið 1995. Húsið er við Schuman hringtorgið nærri Berlaymont, höfuðstöðvum framkvæmdastjórnarinnar, og Justus Lipsius byggingunni, höfuðstöðvum ráðs ESB.

EUObserver: Juncker’s chief of staff: ‘I get 800 emails a day’

 

Tengt efni

Share

About Author

admin

(0) Readers Comments

Comments are closed.

UA-26279970-3